top of page

Hvað er PSA og Gleason?

PSA og Gleason eru orð sem koma fyrir snemma þegar fólk – hvort sem er karlmaður eða maki hans - er að hugsa eða heyra um blöðruhálskrabbamein, hvort sem menn eru að fara í fyrstu umferð að athuga hvort þeir séu mögulega með blöðruhálskrabba eða búnir að fá niðurstöðu, sem leiðir þá á næsta stig.

Hvað þýða þessi orð?

PSA mæling hefur verið notuð til að skima fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli. PSA er mælanlegt í blóði og segir til um magn eggjahvítuefnis sem kallast Prostate Specific Antigen en frumur blöðruhálskirtilsins framleiða þetta eggjahvítuefni.


Hafa ber í huga að PSA-gildi segja ekki að fólk sé með krabbamein, heldur er það oft fyrstu merki sem hægt er að mæla. PSA hækkar með aldrinum, því hærra sem PSA-gildið er, þeim mun meiri líkur eru á að krabbamein sé til staðar í blöðruhálskirtlinum.


GLEASON-gráða kemur þá yfirleitt næst ef PSA gildið er ákveðið hátt og læknar vísa manni áfram. Þegar krabbameinsfrumur eru skoðaðar í smásjá má sjá að þær hafa mismunandi mynstur eftir því hversu miklar líkur eru á að þær séu hraðvaxandi. Mynstrin fá gráðu frá 1 upp í 5, svonefndar Gleason-gráður. Gráða 3 eða hærri bendir til krabbameins en gráða á bilinu 1 til 2 telst ekki krabbamein.


Ef krabbameinsfrumur finnast í sýnum frá þér er þeim gefin Gleason-gráða sem segir til um hversu illkynja krabbameinið er, það er að segja hversu miklar líkur eru á því að það vaxi og dreifi sér út fyrir kirtilinn.

bottom of page