top of page

LEIÐARINN: Erfiðar ákvarðanir

Íslenskur krabbameinslæknir sem sótti reglulega ráðstefnur erlendis um krabbamein sagði mér eitt sinn, að þegar rætt væri um flestar tegundir krabbameina á þessum ráðstefnum, væru læknar almennt nokkuð sammála. Hinsvegar þegar rætt væri um krabbamein í blöðruhálskirtli væru mjög skiptar skoðanir. Nokkur ár eru síðan þessi ummæli voru sögð en ég held þau séu enn í gildi. Krabbamein í blöðruhálskirtli og ákvarðanir um meðferð eftir greiningu eru líklegast einar flóknustu ákvarðanir sem teknar eru á sviði krabbameina.

Eitt sinn heyrði ég af ráðstefnu þar sem læknum á ráðstefnunni voru gefnar upp mælingar í tilfellum krabbameins í blöðruhálskirtli og þeir beðnir um að koma með ráðleggingar um val á meðferð. Niðurstöður urðu mjög mismundandi. Í Bandaríkjunum er mikil áhersla lögð á að þeir sem greinast leiti til fleiri en eins læknis um álit. Athuganir sýna að læknar hafa tilhneigingu til þess að ráðleggja það aðgerðarsvið sem þeir þekkja best. Skurðlæknir þekkir skurðsviðið best og geislalæknir þekkir geislameðferðina best. Eins og einn fyrirlesari sagði á ráðstefnu sem ég sótti í Bandaríkjunum.


"Þegar þú kaupir þér bíl og ferð á söluskrifstofu bílaumboðs mælir viðkomandi sölumaður með þeim bíl sem hann þekkir og selur en ekki bíl frá öðru bílaumboði"

Breyttar nálganir eru nú á Íslandi þegar menn greinast með BHK. Eftir greiningu hitta menn lækna frá fleiri en einu meðferðasviði. Endanleg ákvörðunin um meðferð eftir BHK greiningu verður samt alltaf tekin af einstaklingnum sjálfum og maka hans en ekki læknum.


Læknar geta gefið upp valmöguleikana en ekki tekið ákvörðun um meðferð fyrir einstaklinginn. Eitt sinn á upphafsárum mínum í virku eftirliti spurði ég lækni af hverju hann mælti ekki með virku eftirliti fyrir menn sem greinast með lág gildi. „Ég get það ekki,“ sagði læknirinn, „ef ég ráðlegg eitthvað og síðan þróast mál einstaklingisins til hins verra, verð ég spurður t.d. 5 árum síðar af hverju léstu mig...........“

Krabbameinsfélagið Framför styðjur menn sem greinast með BHK. Félagið leggur áherslu á tvennt í starfinu:
  • Annars vegar að veita aðgengilegar upplýsingar á vefsíðunni www.framfor.is og í bæklingum m.a. um hvaða upplýsingar þarf að skoða þegar ákvörðun er tekin um meðferð.

  • Hins vegar að halda upp félagsstarfi þar sem einstaklingar geta leitið eftir persónulegum upplýsingum hjá starfsfólki og einnig tekið þátt í starfi stuðningshópa. Þar geta menn og makar í nálægð og trúnaði leitað persónulegs stuðnings hjá öðrum einstaklingum sem eru á sömu braut.

Ef starf Framfarar leiðir til þess að erfiðar ákvarðanir um meðferð verða léttari, menn og makar verða sáttari við ákvarðanir sínar og að fylgja þeim eftir, er tilgangi félagsins náð.

bottom of page