top of page
  • Writer's pictureStefán Stefánsson

Strákakraftur í Ljósinu



StrákaKraftur er félagsskapur stráka á aldrinum 18 til 40 ára sem eiga það sameiginlegt að hafa greinst með krabbamein. Í vetur höfum við hist annan hvern miðvikudag og gert eitthvað skemmtilegt saman. Við höfum til að mynda spreytt okkur á bogfimi, pool, kappaksturshermum og fleiru. Látum vera að ræða árangurinn í greinunum, enda er þetta að mestu til gamans gert. Við höfum líka verið með rólegri stundir þar sem við höfum komið saman í húsakynnum Krafts í kjallaranum í Skógarhlíð 8. Þar höfum við sest niður, fengið góða gesti og spjallað fram eftir kvöldi.


Tilgangurinn með StrákaKrafti er kannski ekki síst jafningjastuðningurinn. Þarna koma strákar saman og geta leitað í reynsluheim annarra eða miðlað af eigin reynslu. Eins er hægt að gleyma sér í góðum félagsskap og tala um eitthvað allt annað.


Jafningjastuðningurinn er mikilvægur þáttur í að vinna sig í gegnum krabbameinsgreiningu, meðferð og að meðferð lokinni. Þar kemur StrákaKraftur sterkur inn, hvar sem þú ert í ferlinu. Hvort sem þú ert nýgreindur, í miðri meðferð, nýbúinn að ljúka meðferð eða löngu búinn að ljúka henni, þá er gott að geta leitað til jafningja.


Umsjón með hópunum hefur Róbert Jóhannsson félagsmaður í Krafti en hann hefur sjálfur reynslu af því að hafa greinst með krabbamein.


Einu sinni á ári er haldin Kröftug strákastund Krafts, Ljóssins og Krabbameinsfélagsins. Hún var haldin á Kex hostel í mars þar sem fimm ungir karlmenn deildu reynslu sinni með þeim sem sátu í salnum. Mætingin var góð og erindin og áhorfendur nutu góðs af samkomunni. Þar voru það ekki síst samtölin sem urðu til eftir stundina sjálfa sem gerðu kvöldstundina mikilvæga fyrir þá sem mættu. Strákastundin í vetur var tileinkuð vinum sem aðstandendum krabbameinsgreindra, undir slagorðinu: Stattu með þínum.

bottom of page