top of page

Matur sem lyf - Getum við borðað til að svelta krabbamein?

  • Rannveig Traustadóttir
  • May 31
  • 2 min read

Læknirinn og vísindamaðurinn Dr. William Li hefur vakið heimsathygli sem frumkvöðull nýrrar nálgunar varðandi heilsufar og mataræði. Hann hélt Ted-fyrirlestur í apríl 2014 sem bar yfirskriftina „Getum við svelt krabbamein með matnum sem við borðum?“ (Can we eat to starve cancer?) Í fyrirlestrinum kynnti William Li nýja hugsun í meðferð á krabbameinum og fleiri langvinnum sjúkdómum gegnum matinn sem við borðum.


Geta matartegundir svelt krabbameinsæxli?

Sem vísindamaður hefur hann átt þátt í að þróa mörg ný krabbameinslyf meðal annars lyf sem ætlað er að „svelta“ krabbameinsæxli með því að hindra blóðfræði til þeirra. Við þessar rannsóknir datt honum í hug að kanna hvort matartegundir gætu framkallað svipuð áhrif. Eitt af því fyrsta sem hann prófaði var grænt te – og viti menn – grænt te virkaði jafn vel og  lyfin við að koma í veg fyrir vöxt á æðum sem næra krabbameinsæxi og „svelti“ þau þar með.


Höfum vanmetið möguleika líkamans til að endurheimta heilsuna

Þetta varð til þess að William Li fór markvisst að rannsaka „mat sem lyf“ (food as medicine). Rannsóknirnar leiddu í ljós að fjöldi fæðutegunda virka sem forvörn gegn krabbameinum. Þessar rannsóknir hafa vakið heimsathygli og metsölubók hans Eat to Beat Disease[1] sem kom út árið 2019 byggir á vísindalegum rannsóknum um hvernig líkaminn getur heilað sjálfan sig með matnum sem við borðum. William Li leggur áherslu á rétt mataræði sem mikilvæga viðbót við hefðbundna krabbameinsmeðferð.  

Bókin er hafsjór af aðgengilegum og hagnýtum fróðleik. Þar er meðal annars listi yfir 200 heilsueflandi matartegundir sem hjálpa líkamanum að takast á við krabbamein og styðja við varnarkerfi líkamans. „Við höfum vanmetið möguleika líkamans til að breyta og endurheimta heilsu okkar“ segir William Li. Hann skýrir vísindin að baki heilsueflingu og forvörnum með nýjum og afar áhugaverðum hætti, ráðleggur um aðferðir til að nota fæðu sem virka leið til að breyta og bæta heilsuna.


Er með fría fræðslu

William Li er eftirsóttur fyrirlesari, kemur iðulega fram í hlaðvörpum og heldur áhugaverð og aðgengileg námskeið á netinu. Hann gefur líka út fréttabréf og heldur úti fræðslu á samfélagsmiðlum sem hvoru tveggja er frítt. Auðvelt er að finna hann á Facebook, Instagram og YouTube.  Formleg vefsíða hans er https//drwilliamli.com[2]  Fyrir fólk sem vill taka mál í sínar eigin hendur og hafa áhrif á heilsuna þá er óhætt að mæla með því að kynna sér rannsóknir og ráðleggingar dr. William Li.


Rannveig Traustadóttir er áhugamanneskja um náttúrulegar leiðir til heilsueflingar.

[1] William W. Li (2019). Eat to Beat Disease: The New Science of How your Body Can Heal Itself. New York: Grand Central Publishing.





 

Comments


bottom of page