Ljósið endurhæfingarmiðstöð
- Erna Magnúsdóttir
- Apr 10, 2023
- 2 min read
Updated: Apr 18, 2024

Ljósið þjónustar karlmenn með blöðruhálskirtilskrabbamein, nánustu aðstandendur þeirra og fjölskyldu. Markmið þjónustunnar er heildræn og þarfir einstaklingsins eru í brennipunkti sama á hvaða stað fólk er í ferlinu hverju sinni. Ljósið leggur upp með að veita stuðning í kjölfar greiningar, fræða um bjargráð, styðja við virkni og félagslega þátttöku með það að markmiði að menn geti aftur sinnt þeim hlutverkum sem þeir kjósa utan Ljóssins. Góð samvinna er á milli Krabbameinsfélagsins Framför og Ljóssins.
Í upphafi endurhæfingarferlisins er sett saman dagskrá endurhæfingar í samvinnu við iðjuþjálfa og sjúkraþjálfara sem eru tengiliðir allt ferlið. Dagskránni er ætlað að styðja menn í að nýta Ljósið eins og þeim þykir vænlegast til að ná sínum markmiðum. Þessi dagskrá nær til líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar endurhæfingar og þeir sem koma í Ljósið eru hvattir til að nýta sér Fræðslufundi fyrir karlmenn sem eru tvö fjögurra skipta námskeið með samtals átta fyrirlesurum. Teymi fagaðila heldur utan um endurhæfingaferli hvers og eins og metur endurhæfingarþarfir vegna krabbameins í samráði við einstaklinginn. Í dagskrá einstaklingsins er í boði; fyrrnefndir fræðslufundir, líkamlega endurhæfing í hóp eða tækjasal, jóga, handverksnámskeið, námskeið í núvitund, þrautseigju, aftur til vinnu, tímamót þá er boðið uppá heilsunudd, snyrtingu og fleira. Þá starfar þverfaglegur hópur fagaðila þar sem hægt er að fá ráðgjöf og má þar nefna næringarfræðing, markþjálfa, sálfræðing og fjölskyldumeðferðarfræðing.
Blöðurhálskirtilskrabbamein eins og önnur krabbamein hafa áhrif á alla fjölskylduna og aðstandendur eru velkomnir í viðtöl og á námskeið hjá Ljósinu. Það getur verið erfitt að ræða við aðstandendur en reynslan í Ljósinu hefur sýnt að það getur verið erfiðara að sleppa þeim samtölum. Það er auðveldara að takast á við breyttar aðstæður með öðrum og Ljósið býður upp á fræðslu og viðtöl við fagaðila til að auðvelda þessi samskipti.
Erna Magnúsdóttir
Framkvæmdastýra Ljóssins
Comments