top of page

Spjall við maka í svipaðri stöðu hjálpar

  • Writer: Hólmfríður Sigurðardóttir
    Hólmfríður Sigurðardóttir
  • May 31
  • 2 min read

Þetta er ein þeirra leiða sem getur gripið maka á fyrstu metrum krabbameinsgreiningar en einnig í meðferðar- og bataferlinu.  Krabbameinsfélagið Framför býður nú upp á mikilvægan jafningjastuðning fyrir maka karla sem greinst hafa með krabbamein í blöðruhálskirtli.


80% karla sem greinast tala bara við maka sinn

Það er alltaf áfall þegar lífsförunauturinn greinist með krabbamein. Hugsanir leita í það hvort hann muni lifa krabbameinið af. Taka þarf ákvörðun um leið til að ráðast til atlögu við meinið og sporna við endurgreiningu. Í kjölfarið þarf að byggja upp og þá stendur parið oftar en ekki frammi fyrir mörgum tabúmálum sem erfitt getur verið að horfast í augu við hvað þá að tala um.

Um 80% karla sem greinast með krabbamein í blöðruhálskirtli tala eingöngu við maka sinn. Einnig erum við makarnir í þeirri stöðu að fara í gegnum allt ferlið með þeim, mæta í læknatímana, fylgja í aðgerðina, lyfjameðferð, geisla og síðast en ekki síst að hvetja þá til dáða.


Hætta á félagslegri einangrun

Rannsóknir á vegum EUROPA UOMO sýna að krabbamein í blöðruhálskirtli hefur djúpstæð áhrif á pör og parasambönd, nánd þeirra, félagslíf og lífsgæði.

Um helmingur maka karla sem greinst hafa með krabbamein telja að maki þeirra sé „ekki sami maðurinn“ eftir meðferðina. Um þriðjungur töldu stöðuna óbreytta. Einn af hverjum fimm mökum segist hafa dregið úr félagslegum samskiptum vegna krabbameinsins og meirihluti þessa hóps segist vera einmana.


Tala opinskátt um sjúkdóminn

Stór meirihluti maka segist tala opinskátt um krabbameinið og hluti maka greinir frá því að sjúkdómurinn hafi styrkt sambandið. Þetta eru jákvæðar niðurstöður.


Meðferð hefur áhrif á kynlíf

Meirihluti maka nefnir að kynlífið hafi verið betra fyrir krabbameinið. Rúmlega helmingur maka segir að kynlíf sé þeim mikilvægt, fimmtungur segist ekki lengur hafa þörf fyrir kynlíf vegna krabbameinsins og þriðjungur segist svekktur yfir „glataða“ kynlífinu.


Makahittingur er  góður stuðningur

Hópurinn Traustir makar hafa hist einu sinni í mánuði í vetur. Það hefur verið lærdómsríkt að hitta maka karla sem greinst hafa með krabbamein í blöðruhálskirtli. Við makarnir höfum fundið sameiginlegan flöt þrátt fyrir að meðferð karlanna okkar sé mismunandi. Okkur hefur þótt léttir að hitta aðra maka sem hafa getað sett sig í spor okkar, hafa deilt reynslu sinni og jafnvel fundið lausnir á áskorunum sem við höfum staðið frammi fyrir. Það hefur verið góður stuðningur.

Samtöl við aðra maka í sömu eða svipaðri stöðu, hefur jákvæð áhrif á lífsgæði para sem eru að glíma við krabbamein í blöðruhálskirtli.

 

Hólmfríður Sigurðardóttir, forsvarskona Traustra maka og varaformaður Framfarar



댓글


bottom of page