top of page

Sorgarmiðstöð veitir stuðning eftir andlát ástvina

  • Sorgarmiðstöðin
  • May 31
  • 2 min read

Sorgarmiðstöð er með það að markmiði að styðja við syrgjendur sem hafa misst ástvin og sömuleiðis að styðja við alla þá sem vinna að velferð syrgjenda. Starfsemi Sorgarmiðstöðvar lýtur fyrst og fremst að stuðningi, ráðgjöf, upplýsingaþjónustu og fræðslu.


Sorgarmiðstöð býður meðal annars upp á stuðningshópa fyrir syrgjendur. Stuðningshópar í sorgarúrvinnslu eru ekki meðferð við sorg, en þeir geta bætt líðan þeirra sem syrgja og hafa þannig meðferðarlegt gildi. Markmiðið með hópastarfinu er að gefa syrgjendum rými og vettvang til að tjá líðan sína og veita þeim innsýn og skilning á margvíslegum birtingarmyndum sorgarferilsins. Þegar fólk kynnist, sem á það sameiginlegt að hafa misst ástvin, skapast oft dýrmæt samkennd og traust þar sem þátttakendur fá tækifæri til að þiggja stuðning og miðla eigin reynslu. Þar að auki er hægt að sækjast eftir samtali við jafningja í Sorgarmiðstöð en þau sem veita jafningjastuðning hjá Sorgarmiðstöð eru einstaklingar sem misst hafa náinn ástvin, náð að vinna vel úr sínum missi og hafa fengið viðeigandi þjálfun. 


Bjargráð í sorg

Sorg tekur tíma og hún getur verið mjög sár, en sumt getur hjálpað okkur til að líða betur. Það eru svokölluð bjargráð, en þau geta verið af ýmsum toga. Hver og einn þarf svolítið að finna sína leið, því það sama hentar ekki öllum. Við erum mismunandi og missir okkar og aðstæður eru ólíkar.

Bjargráðin skiptast í þrjá flokka, en þau eru í grunninn; að leita sér hjálpar, að hlúa að sér og svo það að hvíla sig frá sorginni. Það er síðan misjafnt hvaða verkfæri einstaklingar grípa í til að hjálpa sér í sorginni. Það að leita sér hjálpar getur falist í því að tala við vini og ættingja um hinn látna, finna sér fyrirmynd eða leita sér að fagaðstoð. Það að hlúa að sér getur falið í sér að hvíla sig, nýta útiveru og náttúru til að fá orku, að skrifa í dagbók eða einfaldlega að leyfa sér að gráta. Svo getur líka hjálpað gífurlega að gefa sér smá tíma í það að dreifa huganum frá sorginni en það getur meðal annars falið í sér að finna sér nýtt áhugamál, fara í ferðalag eða setja sér eitthvert markmið.


Sorg fylgir alla en getum lært að lifa með

Sorg er ekki bara röð atburða, stig eða tímalína. Samfélagið setur gríðarlega pressu á okkur að komast yfir sorgina og fara í gegnum hana. En sorg eftir andlát lýkur ekki heldur fylgir hún okkur alla ævi en við getum öll lært að lifa með sorginni. Sorgin er aldrei línulegt ferli og hún er alltaf einstaklingsbundin. Það er ekki til neitt sem heitir dæmigerð viðbrögð enda er ekki til neinn dæmigerður missir. Sorg okkar er persónubundin rétt eins og lífið sjálft.




Yorumlar


bottom of page