Sigrast á krabbanum var fyrirsögnin á frásögn Stefáns Stefánssonar hjá Krabbameinsfélaginu Framför á baksíðu Morgunblaðsins í mars síðastliðnum. Þar fór hann yfir sína sögu á baráttu sinni við krabbamein í blöðruhálsi auk þess að segja frá starfi Framför, sem stefnir að því opna félagsmiðstöðina Hellirinn á heimili félagsins í Hverafold 1-3 í Reykjavík þar sem áhersla verður á félagslega virkni, fræðslu og betri lífsgæði. Til að ná mönnum út úr „hellinum sínum“ verði þeir narraðir út með brauðtertum eða kótilettur í raspi.

„Við viljum létta mönnum með blöðruhálskirtiskrabbamein, jafnt sem mökum, lífið með mjúkri innkomu,“ segir Stefán sem sinnir félagsmálum og fjáröflun fyrir félagið og ítrekar að hjá þeim sé heimasíðan framfor.is alltaf tilbúin og síminn alltaf opin. Þar geti menn fengið að ræða fyrstu viðbrögð við einhvern sem hefur sjálfur tekist á við krabbamein. Framför er með heimasíðuna www.framfor.is og gefur einnig út bæklinga, sem afhentir eru við greiningu, enda mikilvægt að fólk fái traustar upplýsingar og internetið er líklega ekki besti kosturinn fyrir fólk í áfalli.
Algert áfall þrátt fyrir að greinast á góðum tíma
Þrátt fyrir að krabbamein Stefáns hafi greinst mjög snemma og því auðveldara að takast á við meinið var það engu síðar mikið áfall. Hann hafði misst sér nákomna úr krabba og vissi að verkefnið þyrfti að taka föstum tökum. Lengi var þessi vágestur varla nefndur á nafn, menn báru harm sinn í hljóði en nú sé öldin önnur og fólk að átta sig á að það verði að leggja þessi mál á borðið. Það getur verið mjög þung byrði að bera og jafnvel stutt í þunglyndi og fleiri óvelkomna gesti.
Því fyrr sem meinið er uppgötvað því betra svo að þess vegna er mælst til að karlar um fimmtugt láti athuga þessi mál. Á heimasíðu Framfarar eru viðamiklar upplýsingar um allt sem viðkemur blöðruhálskirtilskrabbameini auk þess sem félagið hefur gefið út upplýsingabæklinga. Efnið er unnið í samstarfi við sérfræðinga og vísa veginn eins og best verður á kosið. „Það er mikilvægt að menn geti gengið að réttum upplýsingum á einum stað og fengið aðstoð,“ segir Stefán.
Nokkrir valkostir í baráttunni
Þar segir líka frá sögu félagins sem hófst undir forystu Odds Benediktssonar 2007 en félagið var endurreist 2019 af stuðningshópnum Frískir menn með forystu Þráins Þorvaldssonar þegar samþykktur var grunnur að nýrri hugmyndafræði og stefnumótun til framtíðar en félagið er í samstarfi við Ljósið, Krabbameinsfélag Íslands, heilbrigðiskerfið og alþjóðleg samtök um ráðgjöf, stuðning og faglegar upplýsingar.
Frískir menn voru karlar sem höfðu greinst með blöðruhálskrabbamein en ekki farið í meðferð, heldur voru í virku eftirliti. Stefán fór aðra leið, greindist 2019 þegar hans krabbamein var á algjöru byrjunarstigi og kaus að fara fljótlega í svokallað brottnám en það er valkostur þar sem róbótar í gegnum lítil göt á kviðnum sjá um að finna meinið og fjarlægja í stað þess að fara í uppskurð, sem áður tíðkaðist og var mikill skurður.
Þarna er búið að nefna tvær leiðir – brottnám snemma eftir staðfestingu á krabbameini og virkt eftirlit þar sem menn geta valið að bíða í mörg ár eftir aðgerðum. Því þótti góð hugmynd að fá Stefán til starfa í félaginu svo hægt væri að bera saman aðgerðir, sem þó eru ekki einu valkostirnir enda fleygir fram þekkingu og nýjar lausnir koma fram.