top of page

Saga Ella… um lyf, ris, andlegu hliðina og fleira í gegnum svipugöngin – upplífgandi og upplýsandi

  • Elías
  • May 31
  • 4 min read

Updated: Jun 1

Eftirfarandi er saga Ella um sinn krabbameinsferil og bauð hann að birta ef við vildum – ef það hjálpar einhverjum að spá í sig, sína stöðu, aðstandendur og framtíðina. 


Ég greindist í byrjun árs 2009 og var þá 56 ára.  Verð 72 ára í sumar, er lífsglaður og spila golf og leik mér.   Hvorki feimin né pjattaður og þori alveg að deila þessu til manna sem eru að glíma við sambærilega hluti.

Því fleiri sem segja sögu sína því betri gagnagrunn fáum við og auðveldum þeim sem eiga eftir að koma að nýta sér reynslu okkar sem höfum farið í gegnum svipugöngin.

Ég fór í geisla á sínum tíma haustið 2009 og man vel eftir þreytu og slappleika. Rýrnaði allur og vöðvamassinn minnkaði verulega.  Ég  náði mér svo á strik aftur og var laus við lyf að mestu í 9 ár þegar þetta tók sig upp aftur.


Kynlífið fór á hliðina

Nú hef verið á lyfinu Zoladex í 3 og hálft ár á 3ja mánaða fresti.  Einu óþægindin eru hitakóf cirka 1-2 í viku.  Stendur í 5-15 mínútur.

Kynlífið fór reyndar á hliðina með Zoladexinu, enda verið að taka hormónana úr sambandi en ég hef komið því í gang aftur með pumpunni góðu og frábærri samvinnu við konuna mína.  Við reynum bara að fá sem mest út úr því sem er í boði. 

Ég hef líka notað caverject duo (20 microgrömmin) sprautuna - orðin flinkur með hana og hún hjálpar verulega til.  Maður fær þó almennilega reisn með henni einni og sér (gott fyrir egóið), en pumpan með gúmmíhringnum er síðan viðbót  sem við hjónin notum alltaf til að halda blóðinu á sínum stað á meðan kynlífið er. 

Við hjónin settum okkur markmið að stunda kynlíf vikulega og það hefur gengið að mestu eftir.  Þar þarf skilningur og húmor að fara saman og ÞORA að tala um hlutina.  Ekkert pjatt eða feimni sem gildir þar.


Eligard og Zoladex

Ég hef lesið grein frá erlendum krabbameinslækni sem leggur að jöfnu Eligard og Zoladex nema aukaverkanir af Eligard í upphafi standa oft í ca 4-7 daga og jafnvel lengur. Þær aukaverkanir eru mest vegna þess að það er töluvert meira magn sem sett er í kviðinn með Eligard.  Þessi Eligard dugar í 6 mánuði og Zoladex í 3 mánuði.  Eligard er líka aðeins breiðvirkara og kannanir sem ég sá og samanburður eru að gefa svipaðar niðurstöður.

Læknirinn minn kom með þessa tillögu og ég treysti honum vel og reikna með að hann sé að hugsa um mína velferð og metur stöðuna að Eligard sé hentugra fyrir mig.

En það sem ég geri alltaf er að kanna og skoða og leita upplýsinga þegar eitthvað nýtt kemur í meðferðina.


Andlega hliðin

Andlega hliðin er í góðu lagi því ég fór í margs konar sálfræðimeðferðir.  Mæli með HAM (hugrænni atferlismeðferð) og Emrd meðferð.  Það reyndist mér best þó það geti verið gott að liggja í bekknum hjá sálfræðingi og tappa af sér áhyggjunum.  Fer núna 1-2 á ári í sálfræðing bara mér til stuðnings.  Jákvæðni og bjartsýni eru bestu lyfin í dag.


Mataræðið tekið í gegn og áfengið burt

Tók mataræðið í gegn og borða helst óunninn mat og sleppi sætindum að mestu.  Kerfið er 350 dagar hreint en gott fæði 15 dagar í kringum jól, páska og veislur og þá borða ég það sem mig langar í.

Áfengi nota ég ekki lengur og það eitt og sér bætti mig mest bæði líkamlega og andlega, þó ég hafi verið svona frekar hófsamur á neyslu þess.  Komið 3 ár án þess og það var bara meðvituð ákvörðun því lifrin og líffærin eru undir auka álagi að vinna úr alkóhólinu.  Nóg leggst samt á þau við að halda manni gangandi og þessi lyf sem við fáum eru mjög krefjandi fyrir líkamann og öll líffæri.


Ristilspeglun reglulega

Ég fer reglulega í ristilspeglun þar sem separ eru fjarlægðir á ca 5 ára fresti.  Þessir separ hjá mér eru krabbameinstengdir og eru  því fjarlægðir.   Hafa verið frá 6 stykki niður í 2 stykki í hverri skoðun.


Ólivuolía

Fyrir ári síðan ráðlagði meltingarlæknirinn mér að taka inn ólívuolíu á fastandi maga á morgnana.  Ég hef alltaf tekið lýsi en hann sagði mér að olívuolían gerði allt sem lýsið gerir auk þess sem olívuolían inniheldur mjög mikið af góðum hollum olíum og er uppistaðan í svokölluðu „miðjarðarhafsmataræði“.   En þeir sem búa við það mataræði, þ.e. miðjarðarhafsmataræðið, hafa hlutfallslega færri greiningar á blöðruháls- og ýmsum öðrum krabbameinum og auk þess færri hjartasjúkdóma sem tengt er við þetta mataræði.

 Ég lét slag standa og tek 4-5 matskeiðar á hverjum morgni og hef gert síðustu 18 mánuði.  Ég fann eftir cirka 2 vikur töluverðan mun á mér með meltingu og svo batnaði mikið hægðarlosun, sem varð fín en hafði verið að plaga mig áður. Svo fann ég eftir 3-4 vikur að liðverkir minnkuðu og í sumum liðum hurfu þeir alveg og hefur verið þannig síðan.

Þessi ólívuolía þarf að vera það sem heitir: virgin olive oil og þarf að vera gul á litinn.  Því minna beiskt bragð því betri gæði. Það er til aragrúi af olívuolíu, en þessi gula er best - sú sem er grænleit er yfirleitt til brúks við matargerð eins og að steikja og því tengdu.  Er unninn úr annari eða þriðju pressun á ólívunum.  Gula virgin oil kemur bara við fyrstu pressun.




コメント


bottom of page