top of page

Leiðari Hellisbúans 2025

  • Writer: Guðmundur Páll Ásgeirsson
    Guðmundur Páll Ásgeirsson
  • May 31
  • 2 min read

Krabbamein í blöðruhálskirtli er algengasta krabbamein karla. Árin 2019 til 2023 greindust að meðaltali 269 karlar ár hvert. Miklar framfarir hafa orðið í greiningu og meðferð krabbameins í blöðruhálskirtli á síðustu árum eins og kemur fram í grein Rafns  Hilmarssonar þvagfæraskurðlæknis hér í Hellisbúanum.   Greiningaferlið er markvissara, lækningarnar valda minni fylgikvillum og lífslíkur þeirra sem greinast með útbreiddan sjúkdóm hafa batnað verulega á síðustu árum.  Við lítum bjartsýn fram á veg.

Um það bil fimmti hver karl er því miður þegar kominn með útbreiddan sjúkdóm þegar hann greinist.  Ýmist eru það  svæðisbundin meinvörp nálægt blöðruhálskirtlinum eða meinvörp fjær í líkamanum, oft í beinum. Þetta hlutfall hefur verið nánast óbreytt frá aldamótunum 2000.

Krabbamein í blöðruhálskirtli þarf að greina og flokka eftir áhættustigi áður en það nær að dreifa sér.  Það er sagt að það sé um það bil tíu sinnum ódýrara að meðhöndla staðbundið krabbamein í blöðruhálskirtli en það sem hefur dreift sér.  Byrði sjúklingsins af veikindum, meðferðum og raski á lífi sínu öllu og fjölskyldu hans er margföld á við það þegar krabbameinið greinist tímanlega.


Of margir greinast sem sé of seint.  Hvernig getum við brugðist við því? 

Við því er fyrst og fremst eitt svar.  Skimun.     


Evrópusambandið mæltist til þess við aðildarlönd sín að þau hæfu undirbúning og tilraunir með skimun fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli árið 2023.  Víða í Evrópu er nú unnið að slíkum tilraunaverkefnum. Loksins hillir undir að greiningaraðferðir séu að verða nógu nákvæmar og ódýrar til að framkvæmanlegt sé að skima kerfisbundið fyrir blöðruhálskirtilskrabbameini án hættu á ofgreiningum og oflækningum.  Mikilvægt er að íslensk heilbrigðisyfirvöld fylgist grannt með framvindu þessara tilrauna og leggi drög að kerfisbundinni skimun hér á landi svipað og er með skimun fyrir mörgum öðrum krabbameinum.



Kommentare


bottom of page