top of page
  • Writer's pictureGuðmundur Páll Ásgeirsson

Leiðari Hellisbúans 2024

Krabbamein í blöðruhálskirtli er algengasta krabbamein meðal karla á Íslandi. Á ári hverju greinast um 240 menn með þetta krabbamein og um 60 menn deyja af völdum þess.


Sumir þessara karla greinast ekki fyrr en meinið hefur náð að dreifa sér og veikindi þeirra verða meiri og erfiðari viðfangs en ef það hefði greinst á frumstigi. Aðrir tapa lífinu vegna þess að krabbameinið fannst of seint.



Guðmundur Páll Ásgeirsson formaður Framfarar


Til skamms tíma hafa heilbrigðisyfirvöld hér og í nálægum löndum ekki staðið að né mælt með regluegri skimun fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli vegna þess að þekktasta leitaraðferðin, að mæla sérstakan mótefnavaka frá blöðruhálskirtli (PSA) með blóðprufu er ónákvæm og gat leitt til ofgreininga og óþarfa læknisaðgerða.


Vatnaskil urðu í afstöðu heilbrigðisyfirvalda í Evrópu til skimunar fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli í lok síðasta árs. Heilbrigðisráðherrar allra landa Evrópusambandsins samþykktu að bæta krabbameini í blöðruhálskirtli á lista þeirra krabbameina sem mælt er með skimun fyrir.  Sá fyrirvari er gerður að aðildarikin skuli á grundvelli frekari rannsókna “meta hagkvæmni og skilvirkni reglulegrar skimunar fyrir blöðruhálskirtilskrabbameini með PSA mælingum og með segulómskoðun (MRI) sem framhaldsrannsókn.”  (1)  


Fjölþættar ástæður liggja að baki þessum umskiptum. Afmörkun áhættuhópa til skimunar verður sífellt markvissari og myndgreiningu hefur fleygt fram.  Heildarsamtök Evrópskra félaga karla með blöðruhálskirtilskrabbamein, Europa Uomo, hafa talað fyrir skimun og snemmgreiningu um árabil og eru gott dæmi um vaxandi þrýsting sjúklingasamtaka á heilbrigðisyfirvöld. Einnig má nefna niðurstöður langtímarannsóknarinnar ERSPC sem sýndu ótvíræðan ávinning af endurteknum PSA mælingum meðal stórra hópa í nokkrum Evrópulöndum yfir sextán ára tímabil. Tölulegar upplýsingar um að dánartíðni vegna krabbameins í blöðruhálskirtli séu mismunandi milli landa eftir bolmagni heilbrigðiskerfa þeirra og áherslu á greiningu og lækningu meinsins haft mikil áhrif.  Innan Evrópusambandsins er 10 ára lifun eftir greiningu allt frá 70% (Búlgaría) þar sem lakast er og yfir 90% þar sem best er (Kýpur). 


Skipuleg skimun fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli er það sem koma skal og skammt að leita fyrirmynda. Þegar árið 2018 hrintu Svíar af stað undirbúningi skipulegrar skimunar fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli sem þeir kalla OPT (Organiserad prostatacancertestning).  Markmiðið er að auka jafnrétti karla til snemmgreiningar, “gera meðferð árangursríkari og auðvelda mat á öðrum prófum sem geta aukið nákvæmni greiningarinnar.”  (2) Svæðisbundin skimunarverkefni hófust 2020, fyrstu áfangaskýrslu voru birtar í lok síðasta árs og núna í mars 2024. Stuttlega segir frá fyrstu niðurstöðum á öðrum stað hér í Hellisbúanum.   Einnig eru þær rýndar til gagns í tímaritinu European Urology núna í mars 2024.  Nafn þeirrar greinar hefst á orðunum: “Skimun eins og hún gerist best”.  (3)  


Fyrir hönd íslenskra karla og ástvina þeirra óskum við í Framför eftir því að heilbrigðisyfirvöld á Íslandi hefji sem allra fyrst undirbúning að reglulegri skimun fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli hér á landi. 

                                                   

Vefslóðir heimilda sem vitnað er orðrétt í:



Comments


bottom of page