top of page

Vinnusmiðja um "Kynlíf og nánd" eftir meðferð við krabbameini í blöðruhálskirtli

Krabbameinsfélagið Framför í samstarfi við Jónu Ingjörgu Jónsdóttur sérfræðing í kynheilbrigðishjúkrun og klínískri kynfræði hélt vinnusmiðju í húsakynnum sínum í Hverafoldinni. Þarna mættu 12 pör til að fræðast um kynlíf & nánd eftir meðferð við krabbameini í blöðruhálskirtli.


Í framhaldinu af þessar vinnusmiðju tók Kristín Heiða Kristinsdóttir blaðamaður á Morgunblaðinu viðtal við Jónu Ingibjörg þar sem fram kom margt áhugavert og fékk Framför leyfi til að taka ýmsa punkta úr viðtalinu.


Um 75% karla segja kynheilsu slæma

Alþjóðleg evrópsk rannsókn sínir að um 75% karla í telja kynheilsu sína slæma eftir meðferð í krabbameini í blöðruhálskirtli og það er í samræmi við samtöl karla sem hafa samband við Framför.


„​Kynlíf og nánd eru lífsgæði sem skipta máli í lífi okkar. Kynlíf og nánd eru griðastaður, persónulegt rými sem hjálpar fólki undir streituvaldandi kringumstæðum, eins og krabbameinsveikindi eru,“ byrjar Jóna Ingibjörg viðtalið.

Að sögn Jónu Ingibjörgu er afar mismunandi hvernig karlar taka á þessum málum en vill skipta meðferðum í fjóra flokka. „Þrjár af þeim breyta kynsvörun hjá karlinum, risinu og því sem gerist í líkamanum við kynferðislega örvun. Allt getur þetta haft áhrif á karlmennskuna, sjálfsmyndina og nána sambandið og ekki er óalgengt að þeir verði óöruggir og dragi sig í hlé. Þeir velta fyrir sér hvað þeir hafi upp á að bjóða ef þeir hafa ekki fullt ris og forðast jafnvel alla snertingu. Allskonar óbein áhrif eru möguleg,“ segir Jóna og telur upp þessar þrjár leiðir – skurðaðgerð, geislameðferð og andhormónameðferð- en bætir við að virkt eftirlit sé líka valkostur.

Vandamálin

Skurðaðgerð getur valdið ákveðnum risbreytingum, mögulega truflað sáðlát og breytt fullnægingu. Fyrst eftir aðgerð kemur fram þvagleki og einnig geta orðið útlistbreytingar á limnum. Allt getur þetta að einhverju leyti gengið til baka, en risið verður kannski aldrei alveg eins og það var fyrir aðgerð.


Geislameðferð hefur svipuð einkenni í för með sér, nema breytingarnar koma fram á lengri tíma.


Andhormónameðferð er þriðja tegund meðferðar, en þá er testósterónframleiðsla þurrkuð upp, til að hefta vöxt krabbameinsæxlis. Við þá meðferð dofnar kynhvöt mikið og einnig geta komið fram risbreytingar, karlar geta fundið fyrir hitakófum, brjóstastækkun, aukinni líkamsþyngd og rýrnun á vöðvamassa. Sumir verða viðkvæmari í lund eða skapi.


Virkt eftirlit er fjórða leiðin er, en sú meðferð er fyrir þá sem eru með hægt vaxandi góðkynja æxli. Slíku eftirliti getur fylgt andlegt álag og fyrir vikið haft óbein áhrif á kynlíf og náin samskipti.“


Jóna segir að kynlífsendurhæfing snúist ekki aðeins um að fá risið til baka, annað hvort með aðstoð lyfja eða hjálpartækja, heldur líka að styrkja nándina í parasambandinu. „Þegar pör koma í ráðgjöf hjá mér þá tek ég útgangspunktinn í veruleika fólks hverju sinni. Hvort þau séu að falast eftir því að opna hugann gagnvart öðrum leiðum en beinum samförum, eða hvort þau séu einblína á að ná risi fram, svo þau geti haft samfarir á ný. Þetta fer alfarið eftir því hvað skiptir viðkomandi par máli.“

Lausnirnar

Jóna segir að úrræðum sé skipt í tvo flokka. „Annars vegar úrræði sem tengjast kynlífi og nánd án þess að stinning komi við sögu og hinsvegar úrræði sem eru í boði ef fólk vill að ris komi við sögu. Fólk er ólíkt og pör eru ólík, en hægt er að tala um þrjár helstu tegundir viðbragða hjá pörum þegar kynlíf breytist eftir krabbamein. Þau sem upplifa ákveðna sorg eða leiða yfir missi á hæfni til samfara, en fólk nær á endanum sátt og lendingu sín á milli. Síðan eru það pör sem eru sveigjanleg í viðhorfum og endurhugsa hlutina, fara aðrar leiðir sem voru ekki inni í þeirra kynlífshegðun áður, til dæmis að nota hjálpartæki. Þriðji hópurinn er sá sem einblínir á að endurheimta fyrra ris, en þau pör eru svolítið föst í því að vilja að hlutirnir verði eins og þeir voru, en það verður aldrei alveg þannig. Vissulega getur ástandið batnað heilmikið og sum pör ná meiri nánd sín á milli en áður. Viðbrögð og reynsla fólks af þessu er allskonar.“

Ekki taka persónulega heldur ræða og finna leiðir

Jóna segir að þegar fólk hafi verið saman í áratugi þá sé kynlífið ekki endilega eitthvað sem það hefur verið að ræða, fyrr en eitthvað fer úrskeiðis. „Þess vegna er svo gott fyrir pör að koma í samtalsmeðferð og heyra hvort í öðru. Þau standa frammi fyrir nýjum veruleika og maki veltir kannski fyrir sér hvernig hægt sé að orða hlutina án þess að virka eigingjarn eða særa þann sem er með krabbmein. Hinn aðilinn spyr sig hvernig hann geti komið til móts við maka sinn, án þess að valda honum vonbrigðum. Allskonar dínamík fer í gang á milli para þegar takast þarf á við þessa stöðu.“​


Jóna segir árangursríkasta kynlífsbatann vera hjá pörum sem eru opin fyrir því að ræða hlutina og pörin sem taka þessu ekki persónulega, heldur einblína á að finna leiðir sem gagnast báðum aðilium og eru samtaka í að finna leiðir. „Því þá eykst tilfinning um samvinnu, skilning og von, og sambandið verður betra fyrir vikið. Þau pör sem eru í góðu sambandi fyrir krabbameinsmeðferð eru líklegri til að ná árangri í kynlífsbata. Ég man eftir hjónum sem komu til mín eftir krabbameinsmeðferð annars aðilans og þau sögðu: Nú er gott að vera ekki lengur sjúklingur og aðstandandi, heldur kærustupar.““

bottom of page