Þetta var yfirskrift málþings á vegum Krabbameinsfélags Íslands 20.mars s.l. Heitið vísar bæði til þess að erfitt er greina krabbameini í blöðruhálskirtli á öruggan og einfaldan hátt og hins að öllum læknis-aðgerðum fylgir áhætta og kvillar sem skerða lífsgæði karla og geta haft mikil áhrif á líkamlega, sálræna og félagslega heilsu þeirra. Málþingið var einkar fræðandi og er hægt að horfa á upptöku af því á slóðinni: Krabbamein í blöðruhálskirtli: Málþing on Livestream.
Dagskrá málþingsins var þessi:
Skimun eða ekki - meðferðarkostir – ávinningur og aukaverkanir: Rafn Hilmarsson þvagfæraskurðlæknir á Landspítala.
Sýnilegar framfarir – staðan á Íslandi: Helgi Birgisson yfirlæknir á Rannsókna- og skráningarsetri Krabbameinsfélagsins.
Áhrif sjúkdóms og meðferðar á lífsgæði, líðan og aðstandendur – Þorri Snæbjörnsson, Ásgeir Helgason, Vigdís Eva Guðmundsdóttir sérfræðingar hjá Krabbameinsfélaginu.
Allir saman nú! Framför, félag karla með krabbamein í blöðruhálskirtli. Guðmundur Páll Ásgeirsson, formaður Framfarar.
Í máli Guðmundar Páls Ásgeirssonar formanns Framfarar kom fram að fyrsta áhersla bæði heilbrigðiskerfisins og karlanna sjálfra og þeirra nánustu er og hefur verið að bjarga mannslífi með því að finna krabbamein sem fyrst og ráðast gegn því með afgerandi hætti.
Önnur áherslan hefur verið að verja lífsgæði, þ.e. að gæta þess að greiningarferlið og lækningarnar valdi sjúklingnum sem minnstum skaða. Mikilvægt er að sjúklingurinn fái á öllum stigum greinargóðar upplýsingar um áhættu og mögulega fylgiverkanir meðferða og finnist hann eiga þátt í ákvörðunum um meðferðir. Markviss endurhæfing, líkamleg sem andleg og félagsleg allt frá greiningu er mikilvægur þáttur í að verja og endurheimta lífsgæði.
Þriðja áherslan er að styðja þá sem undirgangast lækningar í því að lifa gefandi og merkingarfullu lífi þrátt fyrir áfall, skerðingar á lífsgæðum og stundum langvarandi og erfið veikindi.
Sjúklingafélög eins og Framför geta gegnt mikilvægu hlutverki fyrir karla og nánustu aðstandendur þeirra á öllum þrepum þess að greinast með og kljást við krabbamein í blöðruhálskirti eins og Þráinn Þorvaldsson fjallar um í annari grein hér í Hellisbúanum.
Comments