top of page

Rannsókn á dánartíðni eftir meðferðum við krabbameini í blöðruhálskirtli kemur á óvart


Þann 11.mars 2023 birtist í New England Journal of Medicine grein um niðurstöður breskrar langtímarannsóknarinnar á lífslíkum 1643 karla sem greindust með staðbundið krabbamein í blöðruhálskirtli á tímabilinu 1999 til 2009. Þeir voru þá 50 til 69 ára gamlir. Með þeirra samþykki voru þeir af handahófi ýmist settir í virkt eftirlit (545)[1], gengust undir brottnám blöðruhálskirtils (553) eða fóru í geislameðferð (545). Síðan var fylgst með framvindu sjúkdómsins og meðferða við honum. Miðgildi eftirfylgdarinnar var 15 ár, frá 11 árum til 21 árs.

Greinin hefur vakið mikla athygli vegna nokkuð óvæntra niðurstaðna og töluvert verið um hana fjallað.


Helstu niðurstöðurnar eru annars vegar að dánartíðni af völdum krabbameinsins var aðeins 2.7%.

Hins vegar að ekki var tölfræðilega marktækur munur á dánartíðni milli karla sem í upphafi fóru í virkt eftirlit eða hinna sem höfðu fljótlega eftir greiningu gengist undir brottnám blöðruhálskirtils eða farið í geislameðferð.

Einnig vakti athygli að 24,4% karlanna sem lentu fyrir tilviljun í virku eftirliti höfðu ekki þurft læknandi meðferðar við.

Ályktanir höfunda eru þær helstar að krabbamein í blöðruhálskirtli sé í lang flestum tilvikum mjög hæggengur sjúkdómur og að ekki liggi á að grípa til róttækra læknisaðgerða þegar karlar greinast með staðbundið lág- eða meðaláhættu krabbamein í blöðruhálskirtli. Sérstaklega sé mikilvægt að hafa þetta í huga þegar ákvarðanir eru teknar um meðferð því róttækar læknisaðgerðir valda oft fylgikvillum eins og ristruflunum og þvagleka sem skerða lífsgæði lengi eða varanlega.


Að baki þessum niðurstöðum liggur nokkur breytileiki sem vert er að skoða þó hann teljist ekki tölfræðilega marktækur.


Það náðist að fylgja 1610 körlum eftir. 45 þeirra eða 2.7% létust vegna krabbameins í blöðruhálskirtli. Nánar til tekið voru það 3.1% (17) þeirra sem fóru upphaflega í virkt eftirlit, 2.2% (12) þeirra sem fóru í skurðaðgerð, og 2.9% (16) þeirra sem fóru í geislameðferð. Krabbameinið dreifði sér út fyrir kirtilinn hjá 9,4% (51) þeirra sem upphaflega voru í virku eftirliti, hjá 4,7% (26) þeirra sem fóru í skurðaðgerð og hjá 5% (27) þeirra sem fóru í geislameðferð.

Höfundum greinarinnar fjalla sérstakleg um að allmargir þeirra sem létust úr sjúkdómnum höfðu við greiningu talist vera í lítilli áhættu á meinvænni framvindu sjúkdómsins. Að hluta til megi rekja það til þess að greiningaraðferðir voru ónákvæmari við upphaf rannsóknarinnar en nú er raunin þannig að áhættan var vanmetin. En eftir stendur að framvinda sjúkdómsins varð miklu hraðari og hættulegri hjá nokkrum hópi karla en hægt var að sjá fyrir með núverandi þekkingu og greiningaraðferðum.


Meginniðurstaðan er engu að síður sú, segja höfundar greinarinnar í lok inngangskafla hennar, að „eftir fimmtán ára eftirfylgd reyndist dánartíðni af völdum krabbameins í blöðruhálskirtli vera lág óháð því hvaða meðferðarkostur var valinn. Því verður að vega og meta hvort gegn öðru mögulegan ávinning og mögulega hættu á skaða sem meðferð getur valdið þegar ákvarðanir eru teknar um meðferð við staðbundnu krabbameini í blöðruhálskirtli.“

Samantekt gerði: Guðmundur Páll Ásgeirsson

Heimild:

Freddy C. Hamdy et. al.: Fifteen-Year Outcomes after Monitoring, Surgery, or Radiotherapy for Prostate Cancer. The New England Journal of Medicine. March 11, 2023. DOI:101056/NE/Moa2214122

[1] Í virku eftirliti (e. active surveillance) er fylgst reglulega með PSA blóðgildum, kirtill þreifaður og tekin vefsýni ef ástæða þykir til. Gripið er til frekari rannsókna og læknandi meðferða ef krabbameinið breytir hegðun sinni til hins verra.

bottom of page