top of page
  • Writer's pictureGuðmundur Páll Ásgeirsson

Glænýjar fréttir af skimun fyrir blöðruhálskirtilskrabbameini í Svíþjóð

Evrópusambandið hefur beint þeim tilmælum til aðildarlanda sinna að hefja undirbúning skipulegrar skimunar fyrir blöðruhálskirtilskrabbameini. Svíar hófu slíkan undirbúning þegar árið 2018.  Farnar eru að birtast greinar í fagtímaritum um hvernig gengur og hér segir frá grein sem birtist í tímaritinu European Urology núna í mars 2024.


Forsaga

Árið 2018 hófu Svíar undirbúning skipulegrar skimunar fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli og gáfu verkefninu skammstöfunina OPT (organiserad prostatacancertestning).  Fyrstu tveim verkefnunum var hrint af stað árið 2020 í fjölmennustu þjónustusvæðum heilsugæslunnar í Svíþjóð, Skáni og Vestur-Gotlandi.  Stokkhólmssvæðið  bættist svo við 2022.  Kanna átti bæði þáttöku og niðurstöður skimunar hjá litlum aldurshópi til að fá upphafsmynd af líklegri þáttöku í almennri skimun og af líklegum fjölda greininga.


Framkvæmd

Körlum sem urðu fimmtugir á rannsóknarári var boðið að koma í blóðprufu til að mæla magn sérstaks mótefnavaka frá blöðruháskirtli (PSA) í blóði.


Ástæðan fyrir vali á úrtaksaldri var að fáir greinast með blöðruhálskirtiskrabbamein svo ungir. Tiltölulega lítið myndi reyna á heilbrigðiskerfið, fáir þyrftu að fara í segulómskoðun í (MRI) í framhaldi af PSA mælingunni, enn færri þyrftu í vefsýnatöku og þaðan af færri myndu þurfa læknismeðferð í kjölfar skimunarinnar. Á hinn bóginn myndu finnast blöðruhálskirtilskrabbamein sem mikilvægt væri að ná til strax.


Körlunum var sent bréf þar sem fram kom að heilbrigðisyfirvöld mæltu ekki með almennri skimun en styddu að einstaklingar tækju sjálfir ákvarðanir um hvort þeir létu mæla PSA eða ekki.  Stuttlega var gerð grein fyrir kostum og göllum skimunar með PSA mælingu. Einnig var greiningar- og meðferðarferli blöðruhálskrabbameina stuttlega lýst í bréfinu.


Helstu niðurstöður

Á tímabilinu frá september 2020 til desember 2022 fengu 68.060 karlar boð um þáttöku og  23.855 (35%) karlanna þáðu boðið.  696 (2.9%) þeirra mældust með PSA jafnt eða hærra en 3 og var þeim boðin MRI myndgreining til að skera úr um hvort taka þyrfti vefsýni til að skera úr um hvort þeir hefðu krabbamein í blöðruhálskirtlinum eða ekki.


Af þeim 221 sem síðan fóru í vefsýnatöku reyndust 137 vera með krabbamein og 93 þeirra voru með krabbamein sem þarfnaðist virks eftirlits eða róttækrar meðferðar (Gleason flokkun á bilinu 2 – 5).


Krabbamein í blöðruhálskirtli greindist sem sagt hjá 0.75% þeirra 23.855 karla sem tóku þátt í rannsókninni. Hlutfall þeirra sem greindust með krabbamein sem þarfnaðist þegar virks eftirlits eða róttækrar læknismeðferðar var 0.39%. 


Allir karlarnir sem ekki greindust með krabbamein í blöðruhálskirtli sem þarfnaðist læknismeðferðar þegar við greiningu munu fá boð um endurtekna PSA mælingu síðar, ýmist eftir tvö eða sex ár eftir mati á líklegri áhættu.


Því er við að bæta að nokkur munur var milli meðaltalna í PSA mælingum milli heilsugæslusvæðana þar sem rannsóknin fór fram. Greinarhöfundar segja það einn af lærdómum tilraunarinnar að fara þurfi yfir og tryggja samræmi í framkvæmd einstakra þátta í ferlinu á þeim stöðum þar sem skimun og greining fer fram.


Yfirfært á íslenskar aðstæður

Nýjustu tölur Hagstofunnar um fjölda karla á Íslandi eru frá 2021. Þá voru 2.151 fimmtugir karlar búsettir á landinu. Ef þriðjungur þeirra eða um 700 hefðu þegið boð um skimun, eins og reyndin var í rannsókninni sem hér segir frá, hefðu líklega greinst í þeim hópi tveir til þrír karlar með blöðruhálskirtilskrabbamein sem þarfnaðist þegar meðferðar.  Allir hinir 697 eða 698 væru hins vegar komnir í reglulega skimun til framtíðar sem myndi tryggja eftir því sem hægt er að blöðruhálskrabbameinin sem þeir ættu eftir að fá myndu greinast snemma.  Það kæmi í veg fyrir alvarleg veikindi margra og ótímabæran dauða sumra af völdum þessa algengasta krabbameins meðal íslenskra karla.


Það er ekki eftir neinu að bíða.  Íslensk heilbrigðisyfirvöld þurfa að hefja undirbúing skipulegrar skimunar fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli.  


Heimildir

Ola Bratt o.fl.: Population-based Organised Prostate Cancer Testing: Results from the First Invitation of 50-year-old Men. European Urology, Vol. 85, Issue 3, March2024, Pages 207-214.   https://doi.org/10.1016/j.eururo.2023.11.013

Comments


bottom of page