top of page
  • Writer's pictureStefán Stefánsson

Framför opnar félagsmiðstöðina Hellirinn með brauðtertum

Hellirinn, spjall- og hittingsfundur karla með blöðruhálskrabba, opnaði með pompi, prakt og brauðtertum fimmtudaginn 21. mars síðastliðin í húsnæði Krabbameinsfélagsins Framför í Hverafold 1-3 í Grafarvogi.



Þarna komu saman um 12 manns en pláss er fyrir miklu fleiri og við vonumst eftir að sjá sem flesta, sem vilja heyra frá öðrum körlum, hvernig þeim líður og hvernig þeir eru að tækla ýmsa kvilla stóra og smá í sínu bataferli, því Framför er batasamfélag.


Reyndar var ekki bara talað um krabba, heldur ýmis mikilvæg mál eins og mótorhjól, rafmagnsbíla og fleira.  Markmiðið með Hellinum er að hann sé alltaf opinn alla fimmtudaga frá klukkan 16 þar til menn vilja fara komast heim en á þessum fundi komu fram hugmyndir um að draga fram skákborð og grípa í spil.   Það fékk fínar undirtektir svo menn eru þess vegna að mæta uppúr hádegi, tylla sér niður með kaffibolla og bara ræða málin í rólegheitum.  Eða bara fylgjast með því þarf ekki að tjá sig, stundum gott fyrir nýliða að fylgjast með og tala þegar þeim hentar.  Svo munum við karlarnir koma með hugmyndir um klúbba og fá fyrirlesara.


Vissulega voru brauðtertur í boði, enda töldum við hjá Framför að slíkt góðgæti gæti gert gæfumuninn með mætingu.  Það reyndist rétt.  Svo vel að þegar ljósmyndari var að störfum skáru menn næfurþunnar sneiðar en þegar hann hafði lagt myndavélinni og sjálfur kominn með kúfaðan disk hættu menn að mæla í sentimetrum og mældu frekar í þumlungum. 


Stundum var líka eins og verið væri að athuga hvað einn diskur gæti borið mikið.  Samt kom alltaf, þegar menn litu á brauðterturnar, setning eins og “æj, ég veit ekki hvort ég hef gott af þessu” en þessi setning var greinilega bara til málamynda.


Eins og við var að búast kom Þráinn, helsti hvatamaður að félaginu, með stutta sögu um mann sem hafði nauðað í konu sinni um sig langaði í tæki, sem færi úr 0 í 100 á nokkrum sekúndum.  Líklegt að nýr rafmagnsbíll hafi verið í kollinum á honum.  Kona hans lét þetta eftir honum, færði honum í afmælisgjöf pakka og í honum var … baðvog.


Sem sagt frekar óformlegt en skilaði árangri þegar menn fóru að bera saman bækur sínar.

Comments


bottom of page