top of page

Fræðandi ferð til Grindavíkur

Lionsmenn í Grindavík buðu Krabbameinsfélaginu Framför í heimsókn til að að fræðast um krabbamein í blöðruhálskirtli enda aukast líkur á krabbameini með auknum aldri og nefndu að þeir vildu heyra “sigrast á krabbanum” enda hafa menn þar á bæ eins og annars staðar fengið á kenna á þessari veiru og misst einhverja nákomna. Í Grindavík búa um 4.000 manns, þar eins og annars staðar, kemur krabbamein í heimsókn.

Fundur var ákveðinn þriðjudaginn 21. mars síðastliðin og héldu Guðmundur Páll Ásgeirsson varaformaður, Guðmundur H. Hauksson framkvæmdastjóri ásamt Stefáni Stefánssyni suður með sjó í Salthúsið í Grindavík þar sem tæplega 30 karlar voru mættir.


Sem gestir voru þremenningarnir með frá byrjun fundar og hlustuðu á öflugt starf Lionsklúbbsins, hverju hann hefur safnað með mikilli sjálfboðavinnu og til hverra sá hlutur skilar sér – kröftugur klúbbur sem greinilega lætur sig alla góða hluti varða. Ekki sakaði á gestirnir þurftu líka að taka undir í hefðbundnum söng og slógu ekkert af þar enda var þeim á eftir boðið upp á hlaðborð með lambakjöti og fiskibollum.


Svo kom að erindi Framfarar. Guðmundur framkvæmdastjóri flutti fyrsta hluta þar sem hann fór yfir söguna hjá Krabbameinsfélaginu Framför, starfsemi og forvarnir, sem félagið sinnir í auknum mæli. Stefán tók svo við, fór yfir samfélagsverkefnið Hellirinn, þjónustu félagsins, stuðningshópa og almenn félagsstarf.


Guðmundur Páll tók siðasta hlutann og sagði sína sögu, hvernig sé að greinast með krabbamein í blöðruhálsi – upplifun sína og reynslu. Þar var reyndur maður á réttum stað, í púltinu, þar sem hann fór í litríku máli yfir hvað hann hafði gengið í gegnum – sorgir og sigra. Fundarmenn voru beðnir um að taka þátt í samtalinu og við tóku frásagnir með áhugaverðum upplýsingum en menn voru líka ófeimnir við að spyrja um margt sem stundum er falið á bakvið einhvers konar feimni – hún var ekki mikil þarna og fyrir vikið var fundurinn mjög upplýsandi jafnt fyrir heimamenn og gestina.

bottom of page