top of page

Borgfirðingar sóttir heim

Borgfirðingar buðu Krabbameinsfélaginu Framför í heimsókn í mars til að kynna Framför og ræða málin almennt.

Fundurinn fór fram á Kollubar á Hvanneyri, skemmtilegu kaffihúsi sem var upphaflega fjárhús og mættu um 20 manns, mest karlar en þó tvær konur því þeim, jú, kemur þetta líka við.

Þráinn Þorvaldsson formaður Framfarar og Stefán Stefánsson félagsmaður fóru á vettvang – fundurinn átti að vera klukkan átta að kvöldi en var seinkað um hálftíma – að sögn Jómundar á Heggstöðum formanns Krabbameinsfélags Borgarfjarðar svo hægt sé að klára kvöldmjaltir. Mikið rétt og bústörfin ganga fyrir.


Krabbi með mörgum vinklum


Í fyrstu sagði Stefán frá Krabbameinsfélaginu Framför, stofnun þess og sögu. Einnig var varpað á skjá afar yfirgripsmiklum og upplýsandi heimasíðum félagsins þar sem segir hvað Framför vill gera og hefur gert, tengslum við samstarfsaðila eins og Ljósið, félag þvagfæraskurðalækna og Krabbameinsfélagið auk þess að bæklingum, sem Framför hefur gefið út, var dreift. Sagt var frá samfélaginu sem Framför hefur myndað, stuðningshópum og mörgu fleiru.

Þráinn tók svo við og “vann salinn” með því að opna sinn þátt með gamanmálum. Hann fór síðan yfir sína persónulegu reynslu, sérstaklega varðandi virkt eftirlit. Þráinn er auk þess í stjórn alþjóðlegra samtaka um krabbamein í blöðruhálsi og hefur aflað sér gríðarlegrar þekkingar á flestum hliðum baráttunnar við krabbamein.


Í kjölfarið fóru af stað umræður, þar sem fólk fljótlega sagði sínar sögur og hvernig þessi vágestur var tæklaður en í ljós kom að margir í salnum höfðu fengið krabba og unnið úr því á mismunandi hátt. Það var síðan mjög gaman og jákvætt þegar til máls tók einn gesta, heilbrigðisstarfsmaður, sem lýsti hvernig skyldi bera sig til að fara í PSA-próf og margt fleira. Það er því óhætt að segja að margt hafi komist í umræðu, margir vinklar og mikil reynsla.

bottom of page